Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Það var eina fallega vetrarnótt núna rétt um daginn að falleg kona kvaddi þennan heim.

Mig langar til að minnast hennar elsku Lilju minnar hér með nokkrum fátæklegum orðum.

Að heilsast og kveðjast, það er lífsins saga. Ég var ekki há í loftinu þegar ég heilsaði þessari lífsglöðu fallegu stúlku í fyrsta sinn og á einu augnabliki myndaðist dýrmætur vinskapur sem hélst alveg óslitinn, meðan báðar lifðu. Það er mér þó huggun harmi gegn sú vissa, að enginn kveðja er til eilífðar.

Sagt er að sorgin sé náðargjöf, því aðeins sá sem hefur elskað getur syrgt og sá sem hefur elskað á margar góðar og hugljúfar minningar. Sú minning sem situr efst í huga mér þessa stundina, er þegar hún vinkona mín sagði mér sína mestu gleði frétt, hún átti von á barni. Ástin sem hún bar í brjósti til síns ófædda barns lýsti hana alla upp innan frá, svo ekki varð um villst hversu glöð og hamingjusöm hún var yfir tíðindunum og ekki var gleðin minni þegar ég sagði henni að ég ætti líka von á barni um svipað leiti.

Við stigum mikinn gleði dans um öll gólf skríkjandi eins og smástelpur fullvissar um það eins og alltaf að nú væri bara bjart framundan. Og það var það svo sannarlega, hún eignaðist gullfalleg litla stúlku sem átti hug og hjarta móður sinnar og var hennar mesti gleðigjafi í lífinu. Hún var alltaf að tala um hana Söru sína og hversu mikið hún elskaði hana. „Hún er það besta og réttasta sem ég hef gert í lífinu." Þessa setningu heyrði ég mjög oft af vörum vinkonu minnar.

Dóttur sinni bjó hún ákaflega hlýlegt og fallegt heimili með dyggum stuðningi foreldra sinna sem aldrei voru langt undan ef hana vantaði aðstoð. Það voru líka ófáir klukkutímarnir sem fóru í það að velta fyrir sér hvernig best væri að innrétta herbergið hennar Söru Líf og hvernig gardínur væri best að sauma. Lilja var alla tíð mikill fagurkeri og ekki vantaði hana hæfileikana, hún gat til dæmis prjónað og saumað nánast hvað sem var, oft var hennar eigin hönnun þar á ferð. Hún þreyttist heldur aldrei á því að reyna að kenna mér handavinnu þó svo að það væri vita vonlaust verk, hún hafði alltaf svo mikla óbifandi trú á mér.

 

Í henni bjó alveg kynngimagnaður kraftur,

hún gafst aldrei upp heldur reyndi aftur.

Og fallegu augun sem lýstu svo skær,

vegurinn skyldi á endanum verða henni fær.

 

Í guð henni geymdi ljúfa og viðkvæma sál,

og þar hún passaði öll mín hjartans mál.

Það breytir engu hvað á mér dynur,

ég veit að hún var góður og einlægur vinur.

Eva Lind


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband